Hönnunar

Um Hönnunarsjóð

Sjóður

Hlutverk Hönnunarsjóðs

Hönnunarsjóður heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið og er tekjustofn hans árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum. Í ár er framlag til sjóðsins 80 milljónir króna og fer Miðstöð hönnunar og arkitektúrs ehf. með umsýslu sjóðsins.

Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis, sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Stjórn Hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra.

Fimm manna stjórn er skipuð til þriggja ára í senn. Núverandi stjórn hönnunarsjóðs skipa: Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur, skipuð af menningar- og viðskiptaráðuneyti, formaður stjórnar, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, hönnuður, skipuð af menningar- og viðskiptaráðuneyti, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, fatahönnuður, Snæfríð Þorsteins, grafískur hönnuður og Helgi Steinar Helgason, arkitekt skipuð af stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Varamenn eru þau Kristján Örn Kjartansson, arkitekt, Þórunn Hannesdóttir, vöruhönnuður og Egill Egilsson, vöruhönnuður.

Sjóðurinn starfar eftir reglum um hönnunarsjóð frá 13. febrúar 2013, sjá hér og um hann gilda úthlutunarreglur frá 9. júlí 2013.

Markmið Hönnunarsjóðs

Lögð er áhersla á fjóra flokka í úthlutunum sjóðsins:

Þróunar- og rannsóknarstyrkir
Er ætlað að styrkja rannsóknir og þróun nýrra hugmynda eða lausna.
Verkefni sem hlotið hefur þróunar- og rannsóknarstyrk á möguleika á að fá verkefnastyrk síðar.

Verkefnastyrkir
Er ætlað að styrkja nýjar hugmyndir eða lausnir sem búið er að þróa og móta og eru komin á útfærslu- og framkvæmdastig.
 Verkefni sem hlotið hefur verkefnastyrk á möguleika á að fá markaðs- og kynningarstyrk síðar.

Markaðs- og kynningarstyrkir
Er ætlað að styrkja verkefni sem komin eru af útfærslu- og framkvæmdastigi og eru fullmótuð og tilbúin til markaðssetningar.

Hámarksupphæð almennra styrkja er 10 milljónir króna.

Ferðastyrkir
Er ætlað að auka möguleika hönnuða og arkitekta á því að taka þátt í erlendum samstarfs- og kynningarverkefnum, sýningum, viðburðum, ráðstefnum eða viðskiptastefnumótum.
Hægt er að sækja um ferðastyrk fyrir einn einstakling eða fleiri til sömu ferðar. Mælt er með því að umsækjendur ferðastyrkja vegna sama verkefnis/ferðar sæki um sem hópur en ekki hver fyrir sig. 
Veittir verða allt að 15 ferðastyrkir í hverri úthlutun að upphæð 150 þúsund hver.

Styrkir eru ekki veittir til verkefna sem teljast til reglulegrar starfsemi hönnuðar eða fyrirtækis.

Leiðbeiningar | Þróunar- og rannsóknarstyrkir, verkefnastyrkir og markaðs- og kynningarstyrkir

Í umsókn skulu textar vera stuttir, hnitmiðaðir, skýrandi og forðast endurtekningar. Sérlega skal vanda textann „Verkefnið í hnotskurn” því hann verður birtur á vef og getur fylgt verkefninu til langs tíma. Hvatt er til þess að skila vönduðum myndrænum gögnum til stuðnings umsóknum og mælt er með því að sameina upplýsingar, myndræn gögn og kostnaðaráætlanir í eitt viðhengi. Búið er að takmarka orðafjölda í umsóknarferlinu.

Umsóknir fyrir þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki og markaðs- og kynningarstyrki skiptast í 5 skref:

Skref 0 | Innskráning umsækjanda
Óskað er eftir grunnupplýsingum um umsækjanda/umsækjendur. Umsækjandi stofnar notandanafn og lykilorð. Staðfesting á notandanafni og lykilorði mun berast umsækjanda með tölvupósti, með því móti geta fleiri komið að vinnslu umsóknarinnar.

Skref 1 | Um verkefnið
Umsækjandi greinir frá um hvers konar styrk er sótt ásamt nánari útfærslu á verkefni. Mikilvægt er að gefa greinargóðar og hnitmiðaðar upplýsingar. Athugið að umsækjendum ber að fylla út alla hluta umsóknar, ekki nægir að vitna í fylgigögn eða vísa í heimasíðu að undanskildu skrefi 5.

Skref 2 | Verkáætlun og upplýsingar um umsækjendur
Umsækjandi greinir frá áætluðu upphafi og endi verkefnis ásamt helstu verkþáttum og samstarfsaðilum. Umsækjendum ber að tilgreina þá samstarfsaðila sem hafa samþykkt þátttöku í verkefninu (ef svo á við). Í þessu skrefi gefst umsækjendum tækifæri á að hlaða inn ferilskrám á pdf-sniði.

Skref 3 | Sérstaða og kynningaráætlun verkefnis
Hér ber umsækjendum að tilgreina sérstöðu verkefnis ásamt gildi og mikilvægi til eflingar, þróunar, og nýsköpunar á sviði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Umsækjendum ber einnig að gera grein fyrir kynningaráætlun verkefnis.

Skref 4 | Kostnaður og fjármögnun
Tilgreina þarf heildarkostnað verkefnis, verkþátta og styrkveitinga. Í þessu skrefi gefst umsækjendum tækifæri á að hlaða inn kostnaðaráætlun á xls- eða pdf-sniði. Vakin skal athygli á því að sjóðurinn veitir að hámarki styrki að upphæð 10 milljónir króna en aldrei hærri en sem nemur helmingi (50%) kostnaðaráælunar verkefnisins.

Skref 5 | Viðbótarupplýsingar
Hér gefst umsækjendum tækifæri á að senda inn fylgigögn allt að 10 MB. Hámarksfjöldi fylgigagna er 5 . Í þessum lið má einnig setja inn tengla á myndskeið.

Upplýsingar vistast sjálfkrafa að loknu hverju skrefi.

Athygli skal vakin á því að hönnunarsjóður tekur ekki við öðrum gögnum en þeim sem koma fyrir í rafrænni umsókn.

Leiðbeiningar | Ferðastyrkir

Hver ferðastyrkur sem veittur verður er að upphæð 150.000 kr. Ef um fleiri en einn farþegar er að ræða, er hægt að fjölga farþegum í hverri umsókn og nemur þá styrkhupphæðin 150.000 kr. á hvern farþega, hljóti umsóknin styrk.

Umsókn fyrir ferðastyrk skiptist í 4 skref:

Skref 0 | Innskráning umsækjanda
Óskað er eftir grunnupplýsingum um umsækjanda/umsækjendur. Umsækjandi stofnar notandanafn og lykilorð. Staðfesting á notandanafni og lykilorði mun berast umsækjanda með tölvupósti, með því móti geta fleiri komið að vinnslu umsóknarinnar.

Skref 1 | Um verkefnið
Umsækjandi greinir frá verkefni og áfangastað. Mikilvægt er að gefa greinargóðar og hnitmiðaðar upplýsingar. Athugið að umsækjendum ber að fylla út alla hluta umsóknar, ekki nægir að vitna í fylgigögn eða vísa í heimasíðu að undanskildu skrefi 4.

Skref 2 | Upplýsingar um þátttakendur
Umsækjandi greinir frá upplýsingum um þátttakendur verkefnis, áætlaðri brottför og komu. Umsækjendum ber að tilgreina þá samstarfsaðila (s.s. boð um þáttöku á viðburðum) sem hafa samþykkt þátttöku í verkefninu. Í þessu skrefi gefst umsækjendum tækifæri á að hlaða inn ferilskrám á pdf-sniði.

Skref 3 | Kostnaðaráætlun og fjármögnun ferðar
Tilgreina þarf heildarkostnað ferðar ásamt sundurliðun á áætluðum kostnaði og styrktaraðilum. Í þessu skrefi gefst umsækjendum tækifæri á að hlaða inn kostnaðaráætlun á xls- eða pdf-sniði. Vakin er athygli á því að ferðastyrkir nema einungis 150.000 krónum á hvern farþega sem tilgreindur er í umsókninni.

Skref 4 | Viðbótarupplýsingar
Hér gefst umsækjendum tækifæri á að senda inn fylgigögn allt að 10 MB. Hámarksfjöldi fylgigagna er 5. Í þessum lið má einnig setja inn tengla á myndskeið.

Upplýsingar vistast sjálfkrafa að loknu hverju skrefi.

Athygli skal vakin á því að hönnunarsjóður tekur ekki við öðrum gögnum en þeim sem koma fyrir í rafrænni umsókn.

Stjórn | Mat | Úthlutun

Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Mat stjórnar byggist á eftirtöldum sjónarmiðum:

-Gæði og stöðu hugmyndar eða verkefnis
-Faglegum bakgrunni umsækjanda
-Að fjárhagsgrundvöllur verkefnisins sé fullnægjandi
-Gildi og mikilvægi verkefnisins fyrir íslenska hönnun og arkitektúr

Styrkir geta numið allt að 10 milljónum króna. Sjóðurinn styrkir að hámarki 50% af kostnaði við verkefni. Ekki eru veittir styrkir til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja eða stofnana, né til verkefna eða viðburða sem búið er að framkvæma.

Sjóðurinn fylgir almennum reglum um vanhæfi og farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Öllum umsækjendum verður svarað með tölvupósti. Þegar úthlutun liggur fyrir verður birt fréttatilkynning um styrkveitingar á heimasíðu sjóðsins www.sjodur.honnunarmidstod.is.

Öllum umsóknum og fylgigögnum skal skilað rafrænt. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfrestur er útrunninn verða ekki teknar til umfjöllunar í sjóðnum.

Samningar | Greiðslur | Eftirfylgni

Styrkþegar skulu gera grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins innan þriggja mánaða frá því að verkefni lýkur. Lokagreiðsla styrkupphæðar verður að jafnaði ekki innt af hendi fyrr en stjórn Hönnunarsjóðs hefur borist lokaskýrsla um verkefnið.

Ef umsækjanda hefur áður verið veittur styrkur úr Hönnunarsjóði þarf lokaskýrsla fyrir veittan styrk að hafa borist áður en ný umsókn er tekin til umfjöllunar.

Hönnunarsjóður áskilur sér rétt til að nýta upplýsingar og myndefni um verkefni sem hlotið hafa styrk til kynningar á sjóðnum í samstarfi við styrkþega og að teknu tilliti til höfundarréttarlaga.

Lokaskýrslu er skilað rafrænt, eyðublað má finna á heimasíðu Hönnunarsjóðs.

Reglur Hönnunarsjóðs

1. gr. Hlutverk.
Hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Einnig að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að útflutningi á íslenskri hönnun.

2. gr. Tekjur.
Hönnunarsjóður heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (frá 30. janúar 2014) og eru tekjur hans:
a. Árlegt framlag sem Alþingi ákveður á fjárlögum.
b. Aðrar tekjur er sjóðnum kunna að hlotnast.

3. gr. Kostnaður.
Kostnaður af starfrækslu hönnunarsjóðs greiðist af tekjum sjóðsins, sbr. 2. gr.

4. gr. Stjórn.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipar sjóðnum fimm manna stjórn til þriggja ára í senn.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið tilnefnir einn fulltrúa, stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa og einn er skipaður án tilnefningar og er hann formaður.

Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varaformaður skal skipaður úr hópi stjórnarmanna.

Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn hönnunarsjóðs lengur en tvö samfelld starfstímabil.

5. gr. Úthlutun.
Heimilt er að veita styrki úr sjóðnum til einstaklinga, félaga, stofnana og fyrirtækja. Sjóðstjórn auglýsir eftir umsóknum og úthlutar úr sjóðnum að minnsta kosti einu sinni á ári á grundvelli úthlutunarreglna sem birtar eru á heimasíðu sjóðsins. Umsóknir skulu gerðar á eyðublöð sjóðsins. Styrkþegar skulu gera grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins innan þriggja mánaða frá því verkefni lýkur.

Heimilt er stjórn sjóðsins að ákveða að tiltekin verkefni hafi forgang við úthlutun styrkja enda sé þess getið í auglýsingum. Við mat á umsóknum er stjórninni heimilt að leita umsagnar fagaðila.

6. gr. Styrktarverkefni.
Heimilt er að veita þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki svo og til annarra verkefna sem tilgreind eru í úthlutunarreglum, sbr. 5. gr.

7. gr. Gildistími.
Reglurnar tóku gildi 13. febrúar 2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. júní 2014

Reglur um úthlutun styrkja úr Hönnunarsjóði

1. gr. Hlutverk og skipulag.
Hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

Hönnunarsjóður leggur áherslu á fjóra megin flokka og ákvarðar stjórn sjóðsins hlutdeild heildarfjármagns í hvern flokk hverju sinni.

 • þróunar- og rannsóknarstyrkir,
 • verkefnastyrkir,
 • markaðs – og kynningarstyrkir,
 • ferðastyrkir.

Stjórn hönnunarsjóðs ber ábyrgð á úthlutun styrkja úr hönnunarsjóði.

Stjórn hönnunarsjóðs er heimilt með atbeina mennta- og menningarmálaráðuneytisins að gera samninga við til þess bæra aðila um almenna umsýslu vegna starfsemi sjóðsins.

2. gr. Auglýsingar og umsóknir
Stjórn hönnunarsjóðs auglýsir eftir umsóknum um styrki úr hönnunarsjóði í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Auglýst skal eftir umsóknum að minnsta kosti einu sinni á ári og skal umsóknarfrestur vera a.m.k. sex vikur.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum og hvar umsóknareyðublöð er að finna. Skilgreina skal umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

Stjórn hönnunarsjóðs er heimilt að leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti við mat á umsóknum og skal gerð grein fyrir því í auglýsingu.

Umsóknum skal skilað á umsóknareyðublaði hönnunarsjóðs. Í umsókn skal koma fram hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum og eftirfarandi upplýsingar og gögn eftir því sem við á:

 • upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila,
 • tilgreina skal þann flokk sem sótt er um,
 • upplýsingar um starfsferil og faglegan bakgrunn umsækjanda og samstarfsaðila,
 • stutt greinargerð um verkefnið, helstu markmið og ávinning,
 • verk- og tímaáætlun,
 • fjárhagsáætlun: áætlaður kostnaður, tekjur og hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrki,
 • staðfest gögn frá samstarfsaðilum og önnur þau gögn sem styðja umsókn.

3. gr. Mat á umsóknum
Stjórn hönnunarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Við veitingu styrkja skal gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt byggðar á faglegu mati. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

 • gæði og stöðu hugmyndar eða verkefnis,
 • faglegum bakgrunni umsækjanda,
 • að fjárhagsgrundvöllur verkefnisins sé fullnægjandi til lúkningar þess,
 • gildi og mikilvægi verkefnis fyrir eflingu íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr hönnunarsjóði þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrksins til að ný umsókn komi til greina.

Ekki eru veittir styrkir til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, né til verkefna og viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Við mat á umsóknum getur stjórn hönnunarsjóðs leitað umsagnar fagaðila, þegar þess er talin þörf.

4. gr Ákvörðun um styrkveitingar og eftirlit
Stjórn hönnunarsjóðs tekur ákvörðun um styrkveitingar úr hönnunarsjóði á grundvelli faglegs mats á umsóknum og hefur eftirlit með því að styrkir séu notaðir til þess sem getið var í umsóknum.
Stjórn hönnunarsjóðs er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Þá er stjórn hönnunarsjóðs heimilt að krefja styrkþega um áfangaskýrslu um framvindu verkefnisins ef þurfa þykir, hönnunarsjóði að kostnaðarlausu.

Lokagreiðsla styrkupphæðar verður að jafnaði ekki innt af hendi fyrr en stjórn hönnunarsjóðs hefur borist greinargerð um verkefnið.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur stjórn hönnunarsjóðs tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur stjórn hönnunarsjóðs krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun er tekin um niðurfellingu styrks eða endurgreiðslu styrks skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.
Stjórn hönnunarsjóðs tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna. Styrkþegum skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög, ef út af bregður.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sér um greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.

Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir stjórn hönnunarsjóðs með skriflegri greinargerð í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok þess verkefnis sem styrkurinn var veittur eða með áfangaskýrslu nái verkefni yfir meira en eitt almanaksár.

Í slíkri skýrslu er m.a. óskað upplýsinga um:

 • framvindu verkefnis sem hlaut styrk úr Hönnunarsjóði, árangur þess og afrakstur,
 • nýtingu styrks, sundurliðun kostnaðar, aðra styrki og tekjur,
 • hvort forsendur verkefnis, markmið, verkáætlun, skipulag og kostnaður hafi breyst og þá hvers vegna.

Hönnunarsjóður áskilur sér rétt til að nýta upplýsingar og myndefni um verkefni sem hlotið hafa styrk til kynningar á sjóðnum í samstarfi við styrkþega og að teknu tilliti til höfundarréttarlaga.

5. gr. Styrktímabil
Styrkir úr hönnunarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna. Nýti styrkþegi ekki styrk í samræmi við tímaáætlun verkefnisins, fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á greiðslu hans. Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd.
Stjórn hönnunarsjóðs getur ákveðið að veita styrki eða vilyrði fyrir áframhaldandi styrkveitingum til verkefna sem taka til lengri tíma en eins árs.

6. gr. Gildistaka
Reglur þessar eru settar skv. 5. gr. reglna um hönnunarsjóðs frá 13. febrúar 2013 og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 20. júní 2014